Dönsk dagblöð hafa lýst stuðningi sínum við Svía í deilunni sem upp er komin vegna Múhameðs-hundsins, svokallaða, myndar sem birt var í sænsku héraðsblaði fyrir skömmu af Múhameð spámanni í hundslíki, og valdið hefur miklum úlfaþyt. Dagblöðin Berlingske Tidende, Jyllands-Posten og Politiken hafa nú öll birt myndina.
Berlingske Tidende, birti ekki skopmyndirnar af Múhameð til að lýsa yfir stuðningi fyrir tæpum tveimur árum þegar mótmælin hófust, blaðið hefur síðan fengið nýjan ritstjóra, Lisbeth Knudsen, og segist hún hefði birt myndirnar hiklaust, ef hún hefði verið þá við stjórnvölinn.
Birtingu myndarinnar í sænska blaðinu Nerikes Allehanda hefur verið mótmælt víða í löndum þar sem múslimar eru í meirihluta, þótt óánægjan virðist ekki jafn almenn og mikil og þegar Jyllands-Posten birti 12 skopmyndir af spámanninum fyrir tveimur árum.
Dagens Nyheter, eitt stærsta dagblað Svíþjóðar, lýsti því yfir í dag að Svíar myndu ekki biðjast afsökunar á birtingunni þar sem þeim bæri nú skylda til að verja sannfæringu sína og standa fyrir opinni umræðu og að múslimar sem hefðu móðgast fengju ekki þá afsökunarbeiðni sem þeir vonuðust eftir.
Ulf Johansen, ritstjóri Nerikes Allehanda, hitti í dag talsmenn sænskra múslima sem staðið hafa í mótmælum og sagðist harma það ef einhverjir hefðu móðgast, það hafi ekki verið ætlunin. Hann hefur hins vegar neitað að biðjast afsökunar á birtingunni.