Orrustan um Kaupmannahöfn háð á ný

Púðurreykinn lagði yfir vellina við Rosenborgarkastala.
Púðurreykinn lagði yfir vellina við Rosenborgarkastala. AP

Hópur um 230 breskra, danskra og norskra áhugamanna um sagnfræði og gamlar orrustur endursköpuðu í dag orrustuna um Kaupmannahöfn í tilefni af því, að 200 ár eru liðin frá því breski flotinn gerði sprengjuárás á borgina og náði danska sjóhernum á sitt vald. Hápunktur hátíðarhaldanna fór fram við Rosenborgarkastala í miðborg Kaupmannahafnar í dag þar sem þátttakendur í fullum herklæðum og einkennisbúningum komu saman.

Peter Catley, sextugur Breti, sagði að allt hefði gengið að óskum í dag. „Fjöldi fólks fylgdist með og allir höfðu gaman af. Við vorum með 130 skyttur og 10 fallbyssur. Svæðið er afar einfalt en þetta gekk allt vel og það skiptir meginmáli.

„Bresku hermennirnir" settu upp herbúðir þar sem hluti af 30 þúsund manna landgöngulið Breta bjó um sig þegar árásin var gerð á höfuðborg Dana árið 1807. Forsaga innrásarinnar var sú, að Bretar höfðu átt í stríði við Napóleon Frakkakeisara frá árinu 1801 en Danmörk, Svíþjóð og Rússar voru aðilar að svokölluðu vopnuðu hlutleysisbandalagi. Bretar töldu að þetta bandalag væri hliðhollt Frökkum og óttuðust að danski flotinn, sem þá var einn sá stærsti í heimi, gæti lent í höndum Napóleons. Eftir að Danir neituðu að yfirgefa hlutleysisbandalagið réðist breski flotinn á þann danska árið 1801.

Í júlí 1807 sömdu Rússar frið og gengu til liðs við Frakka og skömmu síðar umkringdu Bretar dönsku höfuðborgina. Danir neituðu að gefast upp og 2. september þetta ár hóf breski flotinn fjögurra daga stórskotahríð á Kaupmannahöfn. Talið er að skotið hafi verið um 14 þúsund fallbyssukúlum með þeim afleiðingum að 2000 manns létu lífið og þriðjungur borgarinnar eyðilagðist. Danir gáfust upp 6. september og afhentu Bretum flota sinn, þar á meðal 18 orrustuskip og 11 freigátur.

Catley hefur tekið þátt í að endurskapa fleiri orrustur, sem tengjast Napóleonsstríðinu, þar á meðal orrusturnar við Austerlitz og Waterloo.

„Þetta er áhugamál, sem gerir mér kleift að gleyma spennu nútímans," sagði hann. „Við höfum undirbúið orrustuna um Kaupmannahöfn í nokkur ár."

Menn úr andstæðum liðum spjölluðu saman milli bardagaatriðanna.
Menn úr andstæðum liðum spjölluðu saman milli bardagaatriðanna. AP
Breski fáninn blakti í höfuðborg Danmerkur.
Breski fáninn blakti í höfuðborg Danmerkur. AP
Einn úr hópnum fægir sverð sitt í hléi frá átökunum.
Einn úr hópnum fægir sverð sitt í hléi frá átökunum. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert