Ahmad Zia Massoud, varaforseti Afganistans, hvatti í dag í viðtali við blaðið Sunday Telegraph til þess að gripið yrði til þess að sprauta yfir ópíum akra í landinu úr lofto með eitri til að stemma stigu við gríðarlegri aukningu á ópíumræktun í landinu. Massoud sagði baráttu alþjóðasamfélagsins hafa algjörlega mistekist í suðurhluta landsins og að valmúinn dreifi sér líkt og ,,krabbamein” í Helmand héraði.
,,Ég efast ekki um að aðgerðir Breta og annarra þjóða gegn ópíumiðnaðinum í Afganistan eru skipulagðar með góðum vilja, en það er ljóst að stefnan í suðurhluta landsins hefur verið algjörlega misheppnuð.” ´Í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að ópíumframleiðsla hafi aukist um 17% á þessu ári, áætlað er að Afganistan muni framleiða um 8.200 tonn af ópíum á þessu ári, um 93% af heimsframleiðslunni.