Yfirmaður leyniþjónustu Suður-Kóreu, Kim Man-bok hefur verið gagnrýndur af fjölmiðlum í heimalandi sínu fyrir að vera of sýnilegur og hafi látið of mikið á sér bera er hann flaug til Afganistan vegna gíslatökumálsins. Hann stýrði samningaviðræðum við Talibana og fékk 19 gísla lausa.
Man-bok flaug sjálfur heim með gíslana og talaði við fréttamenn og sat fyrir á myndum.
Fréttaskýrendur í S-Kóreu telja að ástæðan fyrir því að yfirmaður leyniþjónustunnar fór sjálfur til Afganistan hafi verið sú að greitt hafi verið mjög hátt lausnargjald til Talibana.
Bæði Kim Man-bok sjálfur og ríkisstjórnin hafa harðlega neitað að nokkuð lausnargjald hafi verið greitt.