Mikil reiði ríkir í Ísrael eftir að Qassam flugskeyti hafnaði í garði leikskóla í bænum Sderot í suðurhluta Ísraels í morgun en tólf börn voru flutt á sjúkrahús vegna sjokks eftir árásina. Flugskeytið er eitt sjö flugskeyta sem skotið var yfir landamærin frá Gasasvæðinu í morgun og hafa palestínsku Jihad-samtökin lýst ábyrgð á tilræðunum á hendur sér og sagt þau „gjöf til Ísraela í upphafi nýs skólaárs”. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Eli Moyal, borgarstjóri Sderot, sakaði ísraelsku ríkisstjórnina um það í morgun að hafa snúið baki við íbúum borgarinnar. “Þeim er einfaldlega alveg sama,” sagði hann.
Tzachi Hanegbi, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar Ísraelsþings, sagði í morgun að Ísraelar yrðu að hafa að íhuga umfangsmikla hernaðaraðgerð á Gasasvæðinu. „Á einhverjum tímapunkti, sem Ísraelar, velja, verður ekki um neitt annað að ræða en að ráðast í hernað á Gasa,” sagði hann.
Foreldrar grunnskólabarna í Sderot höfðu hótað því fyrir helgi að senda ekki börn sín í skóla er grunnskólaárið hófst á sunnudag. Þeir féllu hins vegar frá því eftir að yfirvöld hétu því að öryggis grunnskólabarna yrði sérstaklega gætt og að byrgi við skólana yrðu yfirfarin.