Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa krafið nítján suður-kóreska kristniboða sem talibanar í Afganistan héldu í sex vikna gíslingu um hluta þess kostnaðar sem fór í að tryggja lausn þeirra. Ferð fólksins til Afganistans hefur verið harðlega gagnrýnd í Suður-Kóreu og baðst talsmaður hópsins innilega afsökunar fyrir hans hönd er hópurinn kom til Seoul í gær.
Cheon Ho-Seon, talsmaður Roh Moo-Hyun forseta landsins, greindi frá því í morgun að forsetinn hefði gefið ríkisstjórninni fyrirmæli um að innheimtan kostnað vegna málsins á þeim lagagrundvelli sem fyrir hendi væri. Meðal annars mun vera um ferðakostnað fólksins og sáttasemjara að ræða og kostnað vegna flutnings líkamsleifa tveggja gísla sem teknir voru af lífi í Afganistan.
Það hefur verið harðlega gagnrýnt í Suður-Kóreu að undanförnu að hópurinn skuli hafa farið til Afganistans þrátt fyrir að í gildi væri viðvörun frá utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu gegn ferðum þangað "Með því að hunsa viðvaranir yfirvalda og fara með fyrirgangi til múslímaríkis þar sem mikil spenna ríkir lögðu gíslarnir þunga byrði á heimaland sitt,” segir í leiðara blaðsins JoongAng Ilbo. “Með því að semja við mannræningjana var gengið gegn alþjóðlegum grundvallarreglum og það skapar vantraust á alþjóðavettvangi. Kóreskar kirkjur geta ekki flúið undan þeirri hörðu gagnrýni sem komin er fram á ýtna trúboðsstefnu þeirra sem stofnað hefur lífi nokkurra saklausra einstaklinga í bráða hættu."