Hátt settur meðlimur Fatah hreyfingarinnar, Marwan Barhuti, sem situr í fangelsi í Ísrael segir að Hamas gæti á næstunni reynt að taka völdin á Vesturbakkanum og að það væru mistök ef heimastjórn Palestínu tæki þá hættu ekki alvarlega.
Barhuti segir öryggissveitir heimastjórnarinnar veikburða, og að það hafi enda komið í ljós þegar 40.000 manna lið hliðhollt heimastjórninni gat lítið gert þegar Hamas tóku völdin á Gasa-svæðinu fyrir þremur mánuðum.
Barhuti segir nauðsynlegt að boða til kosninga sem fyrst og að Hamas verði að samþykkja slíkt svo að Palestínumenn geti sjálfir ákveðið hvernig stjórn þeir vilji á heimastjórnarsvæðunum.
Barhuti er valdamikill innan Fatah hreyfingarinnar og var álitinn líklegur arftaki Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Hann var handtekinn af Ísraelsmönnum og dæmdur fyrir fimm morð, og eina tilraun til morðs vegna þriggja sjálfsvígsárása. Hann afplánar nú fimm lífstíðardóma en var engu að síður endurkjörinn á þing heimastjórnarinnar í janúar á síðasta ári.