Ákærður fyrir að hóta að ræna ketti móður sinnar

Reuters

Maður í Rhode Island í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir að kúga rúmlega tuttugu þúsund dali út úr aldraðri móður sinni með því að hóta ítrekað að ræna hjartfólgnum ketti hennar og krefjast lausnargjalds. Manninum hefur verið bannað að koma nálægt móður sinni.

Það var fyrir rúmu ári sem maðurinn, Garry Lamar, sem er 47 ára, hótaði fyrst að ræna kettinum eftir að móðir hans, Mary Lamar Grancher, sem er 78 ára, rak hann að heiman og ásakaði hann um misþyrmingar, að því er lögreglan greindi frá.

„Þarna var ekki aðeins um að ræða hvern annan heimiliskött, hún leit á hann sem lífsförunaut sinn þar sem hún bjó ein,“ sagði talsmaður lögreglunnar.

Lamar er sakaður um að hafa rænt kettinum einu sinni og hótað allt að því vikulega að ræna honum. Móðir Lamars greiddi honum að minnsta kosti tuttugu sinnum alls ríflega 20.000 dali í reiðufé og með ávísunum. Yfirvöld eru enn að kanna fjárreiður hennar til að komast að því hversu mikið nákvæmlega hún hafi reitt af hendi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert