Átta voru handteknir í lögregluaðgerðunum í Danmörku í nótt og verður gæsluvarðhalds krafist yfir að minnsta kosti tveimur þeirra síðar í dag vegna rannsóknar hryðjuverkamáls í Danmörku, samkvæmt því sem fram kom á blaðamannfundi lögreglunnar rétt í þessu. Annar mannanna er leigubílstjóri en hinn nítján ára rafvirki og eru þeir sakaðir um að leggja á ráðin um að fremja hryðjuverk með sprengiefnum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Fyrirtaka vegna gæsluvarðhaldskröfunnar mun fara fram fyrir luktum dyrum en samkvæmt því sem fram kom á fundinum voru mennirnir handteknir eftir að fylgst hafði verið með þeim í þó nokkurn tíma. Þá kom þar fram að Lene Espersen dómsmálaráðherra Danmerkur hafi vitað af aðgerðunum áður en þær hófust. Espersen fékk síðan að vita um klukkan eitt í nótt að aðgerðirnar hefðu tekist vel. Hún vill hins vegar ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur í alla nótt rannsakað íbúð í fjölbýlishúsi við Glasvej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar í tengslum við rannsókn málsins. Húsið var rýmt og þurftu íbúar að eyða nóttinni í rútu á vegum lögreglunnar. Einnig var talsverðu svæði umhverfis húsið lokað um tíma.
Lögreglan hefur einnig handtekið fólk í Avedøre, Ishøj og á Amager.