Jane Tomlinson látin

Jane Tomlinson.
Jane Tomlinson.

Jane Tomlinson, sem vakti mikla athygli í Bretlandi og víðar fyrir baráttu í þágu krabbameinssjúkra, lést á sjúkrahúsi í Leeds í gær af völdum brjóstakrabbameins. Tomlinson, sem var 43 ára og greindist fyrst með krabbamein árið 1990, hljóp m.a. maraþonhlaup og keppti í þríþrautum og aflaði þannig fjár fyrir góðgerðastarfsemi.

Tomlinson fékk að vita árið 2000 að brjósta krabbameinið hefði breiðst út og væri ólæknandi. Lílklega ætti hún aðeins um hálft ár eftir ólifað. Hún hélt áfram að starfa sem hjúkrunarfræðingur og hóf stranga líkamsþálfum þótt hún gengist undir erfiða geislameðferð. Hún hljóp þrívegis í Lundúnamaraþoninu og keppti í maraþoni og þríþraut víða um heim.

Árið 2003 hjólaði hún frá John O'Groats, nyrst í Skotlandi, til Lands end syðst á Englandi og frá Róm til Leeds árið 2004. Lengsta hjólreiðaferð hennar var 6780 kílómetrar frá San Francisco til New York City í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Talið er að Tomlinson hafi alls aflað 1,75 milljóna punda til góðgerðamála.

Tomlinson lætur eftir sig eiginmann og þrjú börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert