21 afbrotamaður hengdur í Íran í dag

Tuttugu og einn afbrotamaður hefur verið hengdur í Íran í dag, að því er fram kemur á fréttavef íranska ríkisútvarpsins. Sautján dæmdir fíkniefnasmyglarar voru hengdir í norðausturhluta landsins, og fjórir aðrir afbrotamenn voru hengdir í borginni Shiraz í suðurhlutanum.

Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að smyglararnir 17 hafi verið hengdir í dögun, en ekki kemur fram hvort aftökurnar fóru fram á opinberum vettvangi eða innan fangelsisveggja. Aftur á móti fóru aftökurnar í Shiraz fram opinberlega og var mikill mannfjöldi viðstaddur.

Aftökum á nauðgurum, fíkniefnasmyglurum og öðrum sem teljast ógn við samfélagið hefur verið fjölgað í Íran undanfarna mánuði, og segja stjórnvöld það vera lið í að auka öryggi almennra borgara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert