Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að mennirnir tveir sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald vegna gruns um að þeir hefðu verið að undirbúa hryðjuverk í gær, hafi búið í Danmörku árum saman og snúist skyndilega á sveif með herskáum múslímum.
Lorenzo Vidino, bandarískur sérfræðingur í hryðjuverkamálum og höfundur bókarinnar Al Qaeda í Evrópu, segir að svo virðist sem hér sé um dæmigerðan hryðjuverkahóp nokkurra einstaklinga að ræða. “Einn eða tveir leiðtogar hafa verið erlendis þar sem þeir hafa fengið þjálfun og síðan hafa þeir komið heim til Danmerkur þar sem þeir hafa leitað samverkamanna á meðal vina og kunningja,” segir hann og bætir því við að svo virðist sem menn, sem tengist Pakistan á einhvern hátt, myndi hættulegustu hópana.
“Það hefur sýnt sig í öðrum málum að hryðjuverkamenn, sem hafa tengsl við Pakistan, eru þeir sem vinna af mestri alvöru að því að fremja árásir og þeir hafa oft náð mjög langt áður en upp um þá hefur komist. Þeir sem hafa tengsl við Pakistan eru hættulegastir," segir hann.
Mennirnir sem sitja nú í gæsluvarðhaldi í Danmörku tengjast annars vegar Pakistan og hins vegar Afganistan.