Átta rússneskar sprengjuflugvélar yfir Norður-Atlantshafi

Norsk F-16 þota fylgir rússneskri Tu-95 sprengjuvél í júlí.
Norsk F-16 þota fylgir rússneskri Tu-95 sprengjuvél í júlí. Reuters

Norskar og breskar orrustuþotur fóru í morgun til móts við rússneskar sprengjuflugvélar yfir Norður-Atlantshafi, að því er norska herráðið í Stafangri greindi frá. Átta rússneskar Tupolev 95 flugvélar sáust á alþjóðlegu flugsvæði yfir Barentshafi í nótt, skammt frá norskri lofthelgi en fóru ekki inn í hana. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins tók þátt í eftirliti með flugvélunum ásamt Norðmönnum og Bretum.

Tvær norskar F-15 orrustuþotur fóru í loftið, að sögn talsmanns norska herráðsins, og samkvæmt heimildum fréttastofunnar AFP sendu Bretar einnig þotur til að fylgjast með Rússunum. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins tók þátt í að fylgjast með rússnesku þotunum yfir hafinu á milli Íslands og Færeyja.

Rússar höfðu tilkynnt að þeir myndu efna til flugheræfinga 3. og 4. september og eru ferðir Tu-95 vélanna taldar tengjast þeim. Tu-95 vélarnar eru langdrægar sprengjuflugvélar frá tímum Sovétríkjanna. Þær geta borið kjarnorkuvopn.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti um miðjan ágúst að hafnar yrðu á ný langferðir herflugvéla um alþjóðlegt flugsvæði, líkt og Sovétmenn gerðu á tímum kalda stríðsins. Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að þeir telji enga ástæðu til að hafa áhyggjur af ferðum þessara rússnesku „mölkúluflugvéla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka