Norskar og breskar orrustuþotur fóru í morgun til móts við rússneskar sprengjuflugvélar yfir Norður-Atlantshafi, að því er norska herráðið í Stafangri greindi frá. Átta rússneskar Tupolev 95 flugvélar sáust á alþjóðlegu flugsvæði yfir Barentshafi í nótt, skammt frá norskri lofthelgi en fóru ekki inn í hana. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins tók þátt í eftirliti með flugvélunum ásamt Norðmönnum og Bretum.
Tvær norskar F-15 orrustuþotur fóru í loftið, að sögn talsmanns norska herráðsins, og samkvæmt heimildum fréttastofunnar AFP sendu Bretar einnig þotur til að fylgjast með Rússunum. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins tók þátt í að fylgjast með rússnesku þotunum yfir hafinu á milli Íslands og Færeyja.
Rússar höfðu tilkynnt að þeir myndu efna til flugheræfinga 3. og 4. september og eru ferðir Tu-95 vélanna taldar tengjast þeim. Tu-95 vélarnar eru langdrægar sprengjuflugvélar frá tímum Sovétríkjanna. Þær geta borið kjarnorkuvopn.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti um miðjan ágúst að hafnar yrðu á ný langferðir herflugvéla um alþjóðlegt flugsvæði, líkt og Sovétmenn gerðu á tímum kalda stríðsins. Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að þeir telji enga ástæðu til að hafa áhyggjur af ferðum þessara rússnesku „mölkúluflugvéla.“