Breskir rannsóknarlögreglumenn hafa fundið erfðaefni hugsanlegs ræningja bresku stúlkunnar Madeleine McCann í hótelíbúðinni í Portúgal þaðan sem stúlkan hvarf í maí. Gert er ráð fyrir að einn eða fleiri aðilar verði handteknir vegna málsins innan næstu 48 klukkutímanna. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Samkvæmt heimildum breska blaðsins The Mirror fannst samsvarandi erfðaefni bæði í íbúðinni í Praia de Luz og á öðrum ótilgreindum sönnunargögnum í málinu.
Blaðið kveðst einnig hafa heimildir fyrir því að foreldrar stúlkunnar hafi ekki fengið upplýsingar um framgang rannsóknar málsins á undanförnum dögum. Lögregla ítrekaði þó nýlega að foreldrarnir lægju ekki undir grun í málinu.