Líklegt að fleiri vinni að undirbúningi hryðjuverka í Evrópu

Danskir lögreglumenn á vettvangi eftir að upp komst um hryðjuverkaáform …
Danskir lögreglumenn á vettvangi eftir að upp komst um hryðjuverkaáform í landinu á þriðjudag. AP

Hryðjuverkamálin sem komið hafa upp í Danmörku og Þýskalandi á undanförnum dögum þykja benda til þess að litlir sjálfstæðir hópar al Qaeda samtakanna hafi náð að skjóta rótum í Evrópu og eru líkur taldar á að einhverjir slíkir hópar séu langt komnir við undirbúning hryðjuverka. Þetta kemur fram á fréttavef Jylland-Posten.

Ekki er talið að nein bein tengsl hafi verið á milli mannanna sem handteknir voru í Danmörku og Þýskalandi en allir hafa þeir tengsl við Pakistan eða Afganistan og er talið víst að nokkrir þeirra hafi verið í þjálfunarbúðum al Qaeda samtakanna þar.

“Al Qaeda sprettur alls staðar upp, einnig í Evrópu, og hóparnir eiga það sameiginlegt að þeir tengjast allir landamærahéruðum Afganistans og Pakistans,” segir franski sérfræðingurinn Francois Géré.

“Hér áður fyrr tók það marga mánuði að fá inngöngu í al Qeeda en ef venjulegur dansk-pakistanskur maður fer nú til Pakistans þá getur hann orðið liðsmaður samtakanna á tveimur vikum. Það er auðvelt að tengjast þeim og það verður sífellt léttara,” segir pakistanski blaðamaðurinn Ahmed Rashid, sem í tuttugu og fimm ár hefur sérhæft sig í umfjöllun um heilagt stríð, Talibana og hryðjuverkastarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert