Þrír Palestínumenn féllu og sex slösuðust í átökum við ísraelska hermenn er Ísraelsher fór á skriðdrekum og jarðýtum um kílómetra inn á norðanvert Gasasvæðið í morgun. Liðsmenn hersins segir að hópur manna hafi ráðist á lestina og mennirnir hafi fallið er hermenn svöruðu skotum þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Tveir hinna föllnu voru liðsmenn Hamas-samtakanna en sá þriðji liðsmaður Jihad.
Ellefu ára palestínskur drengur slasaðist einnig alvarlega er til átaka kom þegar Ísraelsher fór inn í Jenin á Vesturbakkanum í morgun og handtók þar háttsettan liðsmann Jihad-samtakanna. Mun drengurinn hafa fengið gúmmíkúlu í höfuðið og verið fluttur á sjúkrahús í Ísrael.