Al-Jazeera sýndi myndband með bin Laden

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur sýnt myndband með ávarpi Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda. Þetta er fyrsta sinn í þrjú ár sem bin Laden kemur fram opinberlega. Í myndbandinu er hann sagður gera grín að því hversu veik Bandaríkin séu. Bandarískar stofnanir, sem fylgjast með vefsíðum herskárra íslamista vöruðu við því í gær að von væri á tilkynningu frá bin Laden.

Í myndbandinu koma ekki fram neinar beinar hótanir gegn Bandaríkjunum en myndbandið virðist hafa verið gert í sumar sem leið. Þar er vitnað í nýlega atburði í stríðinu í Írak og virðast þeim ummælum ætlað að staðfesta að myndbandið sé nýlegt. Leyniþjónusta Bandaríkjanna liggur nú yfir myndbandinu til að komast að því hvort það er ekta.

Myndbandið er næstum hálftími að lengd og þótt Bandaríkjunum sé ekki ógnað er margsinnis minnst á árásirnar 11. september.

Í myndbandinu segir bin Laden að þótt Bandaríkin séu stærsta afl í heimi, efnahagslega og hernaðarlega þá sé þjóðin ósanngjörn.

Bandarísk yfirvöld hafa neitað að tjá sig um innihald myndbandsins að svo stöddu, vilja láta sérfræðinga fullrannsaka það fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert