Ástralskri sjónvarpsstöð tókst í gær að koma manni, sem klæddur var eins og Osama bin Laden, inn fyrir öryggisgirðingu og námunda við George W. Bush Bandaríkjaforseta og Hu Jintao, forseta Kína, sem nú sitja leiðtogafund Asíu og Kyrrahafsríkja í Sydney. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Starfsmenn sjónvarpsþáttarins"The Chaser's War on Everything" leigðu glæsibifreið og nokkur mótorhjól og óku síðan með manninn inn fyrir öryggisgirðingu við Intercontinental hótelið þar sem forsetarnir voru þá staddir. Þeir voru hins vegar stöðvaðir af öryggisvörðum forsetanna áður en þeir komust að hótelinu og færðir í hendur lögreglu. Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu segir atvikið einungis sanna það að öryggisgæsla á svæðinu virki.