Bush segir myndband bin Ladens sýna hver langtímamarkmið al-Qaeda séu

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í nótt að ummæli Osamas bin Ladens á myndbandi, sem birt var í gærkvöldi, sýni hver langtímamarkmið hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Írak séu og hversu heimurinn, sem við lifum í, sé hættulegur. Í myndbandinu hæðist bin Laden að Bandaríkjunum og fordæmir Bush fyrir að hefja stríð í Írak.

„Írak er hluti af stríðinu gegn öfgamönnum," sagði Bush. „Ef al-Qaedamönnum finnst taka því að nefna Írak á nafn er ástæðan sú, að þeir vilja ná fram markmiðum sínum í Írak, þaðan sem við rákum þá á brott."

Bush tjáði sig um myndbandið eftir fund með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í Sydney í Ástralíu í nótt. Hann talaði þar um „spólu" og „spóluna" og notaði stundum stirðbusalega orðaröð að því er virtist til að forðast að nefna bin Laden á nafn.

Bandarískir sérfræðingar segja nokkuð ljóst að myndbandið sýni bin Laden og að röddin sem heyrist sé hans. Þá sé ekki langt síðan myndbandið var gert en bin Laden vísar m.a. til Gordons Browns sem forsætisráðherra Bretlands.

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi myndbandið í gærkvöldi. Það er hálftíma langt og þar hæðist bin Laden að lýðræðiskerfinu í Bandaríkjunum. Hann minnist nokkrum sinnum á árásirnar á New York og Washington og segir að Bandaríkjastjórn hafi orðið að breyta um stefnu vegna þeirra. „Frá 11. september hafa Mujahedeensveitirnar haft áhrif á stefnu Bandaríkjanna. Og bandaríska þjóðin hafa uppgötvað sannleikann: Orðstír herrar versnaði, virðing hennar þvarr um allan heim og efnahagurinn var mergsoginn."

Segir bin Laden m.a., að Bandaríkjamenn ættu að taka íslamstrú til að stöðva stríðið í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert