Foreldrar Madeleine McCann, fjögurra ára breskrar stúlku sem hvarf úr hótelíbúð í Portúgal í byrjun maí, vilja komast frá Portúgal eins fljótt og unnt er og snúa aftur heim til Bretlands til að hreinsa mannorð sitt. Lögregla í Portúgal lýsti því formlega yfir við hjónin í gær, að þau hefðu fengið stöðu grunaðra og rannsóknin snérist um að sanna að þau hefðu orðið stúlkunni að bana fyrir slysni.
Clarence Mitchell, vinur hjónanna, sagði aðGerry McCann hefði sagt honum að hann og Kate, kona hans, fái á hreint innan tveggja sólarhringa hver lagaleg staða þeirra væri. Sagði Mitchell, að McCannhjónin væru sammála um að þau vildu komast sem fyrst frá Portúgal. Óvíst er hins vegar hvort lögreglan leyfir það þótt ekki hafi verið lagt hald á vegabréf hjónanna.
Kate og Gerry McCann hafa að mestu dvalið í Algarvehéraði í Portúgal frá því dóttir þeirra hvarf en hafa einnig ferðast um Evrópu til að vekja athygli á hvarfi dóttur sinnar.
Mitchell sagði að McCannhjónin, sem eru bæði læknar sem búa og starfa á Englandi, íhugi nú að ráða lögmenn í Bretlandi í þjónustu sína.
Portúgalska lögreglan hefur ekki lagt fram ákærur á hendur hjónunum. Þau hafa haldið fram sakleysi sínu.