Samtök rússneskra stjórnarandstæðinga, sem eru undir forustu Garrís Kasparovs, hætti við að halda pólitíska ráðstefnu um helgina þar sem ekki fékkst leyfi borgaryfirvalda í Moskvu til að halda fundinn. Á fundinum átti að ræða hver yrði frambjóðandi samtakanna í forsetakosningum, sem fyrirhugaðar eru í Rússlandi í mars á næsta ári.
Samtökin, sem nefnast Hitt Rússland, hafði gert leigusamning um samkomusal í Moskvu og greitt leiguna fyrirfram. Talskona samtakanna segir að símbréf hafi borist á föstudag þar sem leigusamningi, sem gerður hafði verið um samkomusal á sunnudag, hafi verið rift. Um 40 mínútum síðar kom annað símbréf þar sem sagði, að ástæða riftunarinnar væri sú, að slys hefði orðið í byggingunni.
Hitt Rússland fann þá annan sal, í Ismailovo hótelinu, og greiddi einnig leiguna fyrir hann fyrirfram. Hótelið rifti hins vegar samningnum og sagði að ekki hefði fengist leyfi fyrir fundinum hjá borgarstjóra Moskvu.
„Það er ljóst að yfirvöld í Moskvu ákváðu að leyfa ekki þennan fund," sagði talskonan. Samtökin vonast til að geta haldið fundinn í Moskvu í næstu viku.
Hitt Rússland, sem eru regnhlífarsamtök lítilla stjórnarandstöðusamtaka bæði á vinstri- og hægrivæng stjórnmálanna, hafa mætt ýmsu mótlæti að undanförnu. Fyrr á þessu ári dreifði óeirðalögregla friðsamlegum mótmælafundum samtakanna í Moskvu og fleiri borgum. Kasparov var síðan handtekinn á flugvelli í Moskvu þegar hann var á leið á mótmælafund í borginni Samara.