Borgaralegu flokkarnir halda meirihluta sínum bæði í Ósló og Björgvin, ef marka má tölur sem birst hafa úr sveitarstjórnarkosningum, sem fóru fram í Noregi í dag. Verkamannaflokkurinn eykur fylgi sitt í höfuðborginni en Sósíalíski vinstriflokkurinn tapar og því breytast ekki valdahlutföllin milli fylkinga. Vinstriflokkarnir virðast ætla að halda meirihluta sínum í Þrándheimi.
Þegar búið var að telja um þriðjung atkvæða bentu tölur til þess að Verkamannaflokkurinn fengi 18 borgarfulltrúa í Ósló, bætti við sig þremur. Sósíalíski vinstriflokkurinn fær hins vegar aðeins 6 borgarfulltrúa, tapar sex.
Hægriflokkurinn, sem verið hefur í forustu í borgarstjórninni, bætir við sig manni og fær 16 fulltrúa en Framfaraflokkurinn, sem myndað hefur meirihluta ásamt Hægriflokknum, tapar einum fulltrúa og fær 9. Vinstriflokkurinn fær 5 fulltrúa, bætir við sig tveimur, Kristilegi þjóðarflokkurinn heldur sínum tveimur fulltrúum.
Í Björgvin vantaði Hægriflokkinn og Framfaraflokkinn einn fulltrúa upp á að fá hreinan meirihluta.
Á landsvísu er Verkamannaflokkurinn stærsti flokkurinn og fær 27,3% atkvæða eða svipað og í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Framfaraflokkurinn fær 21,4%, bætir við sig 5 prósentum, Hægriflokkurinn fær 19,6%, bætir við sig 1,5 prósentum, Miðflokkurinn fær 7,3%, tapa 0,6%, Sósíalíski vinstriflokkurinn fær 5,8%, tapar 6,6 prósentum, Vinstriflokkurinn fær 6,6%, bætir við sig 2,8 prósentum, Kristilegi þjóðarflokkurinn fær 6,5%, 0,1 prósentu meira en árið 2003.