Nawaz Sharif, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, kom til Islamabad fyrir skömmu eftir að hafa verið í útlegð í sjö ár. Sharif var handtekinn um leið og hann steig á Pakistanska jörð og ákærður fyrir peningaþvætti og spillingu. Hann var fluttur með þyrlu frá flugvellinum. Mikill viðbúnaður var á flugvellinum vegna komu Sharifs og lokaði lögregla nærliggjandi vegum þar sem stuðningsmenn hans höfðu safnast saman.
Sharif flaug frá Lundúnum í gærkvöldi en ætlun hans er að reyna að koma í veg fyrir að Pervez Musharraf verði endurkjörinn forseti landsins. Hæstiréttur Pakistans úrskurðaði í síðasta mánuði að Sharif gæti snúið aftur til landsins og hafa yfirvöld sagt að farið verði með hann ,,samkvæmt lögum”.
Svartklæddir sérsveitarmenn fóru um borð í flugvélina eftir að hún lenti. Eftir um níutíu mínútna viðræður fór Sharif frá borði ásamt föruneyti sínu en hann mun upphaflega hafa neitað að afhenda vegabréf sitt yfirvöldum.