Palestínskri eldflaug var í dag skotið inn á herstöð Ísraela norðan við landamærin að Gasa, fimmtíu hermenn særðust í árásinni, sem hefur orðið til þess að Ísraelar íhuga nú umfangsmiklar aðgerðir gegn eldflaugasveitum herskárra Palestínumanna á Gasa-svæðinu.
Þeir særðu eru allir nýliðar í hernum sem eru í grunnþjálfun í herstöðinni. Þeir voru sofandi þegar eldflaugin lenti á mannlausu tjaldi. Ellefu hermenn sem sváfu í nærliggjandi tjöldum særðust alvarlega, en 39 til viðbótar særðust lítillega.