Staðfest að Ísraelar hafi gert loftárás á sýrlenskt landsvæði

Ísraelskir hermenn við heræfingar í Gólanhæðunum.
Ísraelskir hermenn við heræfingar í Gólanhæðunum. AP

Banda­rísk­ir ráðamenn hafa staðfest að yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um og ná­granna­ríkj­um Ísra­els hafi fengið sann­an­ir fyr­ir því að Ísra­els­her hafi varpað sprengj­um á sýr­lenskt landsvæði í síðustu viku. Yf­ir­völd í Sýr­landi staðhæfðu á fimmtu­dag að árás­in hefði átt sér stað en yf­ir­völd í Ísra­el hafa al­farið neitað að tjá sig um málið. Þetta kem­ur fram á frétta­vef CNN.

Talið er hugs­an­legt að árás Ísra­els­hers hafi beinst gegn bíla­lest sem flutti vopn sem ætluð voru liðsmönn­um Hiz­bollah sam­tak­anna í Líb­anon. Sam­kvæmt heim­ild­um CNN var ekki ein­ung­is um loft­árás að ræða held­ur einnig aðgerðir á landi. Þá eru yf­ir­völd í Ísra­el sögð líta svo á að aðgerðin hafi heppn­ast full­kom­lega, ekki síst þar sem hún hafi sent þau skila­boð til yf­ir­valda í Sýr­landi og Íran að þeir geti gert árás­ir hand­an landa­mær­anna þegar þeir kæri sig um.

Walid al-Moualem, ut­an­rík­is­ráðherra Sýr­lands, staðhæf­ir að sprengj­um hafi einnig verið varpað á tyrk­neskt landsvæði og er hann nú í An­kara, höfuðborg Tyrk­lands, þar sem hann freist­ar þess að fá tyrk­nesk yf­ir­völd til að vísa mál­inu til ör­ygg­is­ráðs Sam­einuðu þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert