Staðfest að Ísraelar hafi gert loftárás á sýrlenskt landsvæði

Ísraelskir hermenn við heræfingar í Gólanhæðunum.
Ísraelskir hermenn við heræfingar í Gólanhæðunum. AP

Bandarískir ráðamenn hafa staðfest að yfirvöld í Bandaríkjunum og nágrannaríkjum Ísraels hafi fengið sannanir fyrir því að Ísraelsher hafi varpað sprengjum á sýrlenskt landsvæði í síðustu viku. Yfirvöld í Sýrlandi staðhæfðu á fimmtudag að árásin hefði átt sér stað en yfirvöld í Ísrael hafa alfarið neitað að tjá sig um málið. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Talið er hugsanlegt að árás Ísraelshers hafi beinst gegn bílalest sem flutti vopn sem ætluð voru liðsmönnum Hizbollah samtakanna í Líbanon. Samkvæmt heimildum CNN var ekki einungis um loftárás að ræða heldur einnig aðgerðir á landi. Þá eru yfirvöld í Ísrael sögð líta svo á að aðgerðin hafi heppnast fullkomlega, ekki síst þar sem hún hafi sent þau skilaboð til yfirvalda í Sýrlandi og Íran að þeir geti gert árásir handan landamæranna þegar þeir kæri sig um.

Walid al-Moualem, utanríkisráðherra Sýrlands, staðhæfir að sprengjum hafi einnig verið varpað á tyrkneskt landsvæði og er hann nú í Ankara, höfuðborg Tyrklands, þar sem hann freistar þess að fá tyrknesk yfirvöld til að vísa málinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert