Þess minnst að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin

Blómum hefur verið komið fyrir á girðingum sem liggja umhverfis …
Blómum hefur verið komið fyrir á girðingum sem liggja umhverfis Ground Zero vegna þeirra framkvæmda sem eru þar í gangi. AP

Bandaríkjamenn minnast þess í dag að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin þann 11. september 2001. Tæplega 3.000 manns létust þegar fjórum flugvélum var rænt og þeim flogið á Tvíburaturnana í New York, skrifstofur Pentagon og á akur í Pennsylvaníu.

Kirkjuklukkur hringdu kl. 8:46 að staðartíma til að minnast stundarinnar þegar fyrri flugvélin flaug á annan turninn.

Osama bin Laden, leiðtogi al-Qaeda, hefur birt ný skilaboð þar sem hann vegsamar einn af flugræningjunum.

Þetta er í fyrsta sinn sem athöfnin í New York fer ekki fram á þeim stað þar sem turnarnir stóðu áður (Ground Zero), en þar eru nú framkvæmdir í gangi. Athöfnin fer því að mestu fram í nálægum almenningsgarði.

Líkt og undanfarin ár verða nöfn allra þeirra sem létust í New York lesin upp. Slökkviliðsmenn sem og aðrir sem voru fyrstir á staðinn daginn örlagaríka hafa verið fengnir til þess að lesa nöfnin, og er það í fyrsta sinn sem það er gert.

Áætlað er að minnast þess þegar flugvélarnar flugu á turnana með því að hafa tvær þagnir. Þá verður þess jafnframt minnst með tveimur þögnum þegar turnarnir féllu til jarðar.

Ættingjar þeirra 2.749 einstaklinga sem létust þann 11. september 2001 í New York munu fá að fara inn á vinnusvæðið, þar sem turnarnir stóðu áður, til þess að leggja þar blóm.

„Þetta mun vera hátíðlegur viðburður minningar og endurnýjunar. Dagur fyrir okkur til að minnast þeirra sem eru farnir frá okkur,“ sagði Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, áður en sjálf athöfnin hófst.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

Framkvæmdir standa nú yfir þar sem Tvíburaturnarnir stóðu áður á …
Framkvæmdir standa nú yfir þar sem Tvíburaturnarnir stóðu áður á neðri hluta Manhattan. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert