Öll umferðarljós og stöðvunarskilti verða fjarlægð úr miðbænum í Bohmte, skammt frá Berlín í Þýskalandi á morgun, til þess að auka umferðaröryggi, samkvæmt ákvörðun bæjaryfirvalda. Einnig á þetta að gera gangandi vegfarendum lífið auðveldara. Um 13.000 bílar fara um miðbæinn á degi hverjum.
Klaus Goedejohann, bæjarstjóri í Bohmte, tjáði fréttastofu Reuters að bílaumferð muni ekki lengur njóta forgangs í miðbænum. Það var hollenskur umferðarsérfræðingur sem þróaði þessa aðferð til að auka umferðaröryggi, og hefur Evrópusambandið lagt blessun sína yfir hana.
Þessi leið, sem kölluð hefur verið „sameiginlegt svæði,“ hefur þegar verið farin í bænum Drachten í Hollandi, þar sem ekki eru lengur nein umferðarljós, umferðarskilti, gangstéttar eða götumerkingar.
Goedejohann segir árangurinn hafa verið góðan, stórlega hafi dregið úr slysum í Drachten.