Héraðsstjóri Uljanovskhéraðs í Rússlandi hefur tilkynnt, að þau pör, sem eignast barn eftir rétta 9 mánuði, á þjóðhátíðardag Rússlands 12. júní, fái sérstök verðlaun: jeppa, sjónvörp eða aðrar lúxusvörur.
Segir Sergei Morozov, héraðsstjóri, hefur lýst daginn sérstakan fjölskyldutengsladag og segist vilja að pör taki sér frí í dag og fari heim til að búa til börn.
Þetta er þriðja árið í röð sem veitt veitt eru sérstök verðlaun í Uljanovsk fyrir að eignast börn á þjóðhátíðardaginn en ástæðan er að rússneska þjóðin eldist hratt og barneignum hefur fækkað. Herferð Morozovs virðist þó bera árangur því fæðingartíðni í héraðinu jókst um 4,5% á síðasta ári.
„Ef heilbrigt andrúmsloft er á heimilinu, eiginkonan og eiginmaðurinn elska hvort annað og börn sín þá verða allir í góðu skapi... og það skapar heilbrigt andrúmsloft um allt land," sagði Morozov við AP fréttastofuna.