Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti í dag þrjá nýja ráðherra í ríkisstjórn sinni en eftir ráðherraskiptin er Karen Jespersen, félagsmálaráðherra, Eva Kjer Hansen matvælamálaráðherra og Jakob Axel Nielsen ferðamálaráðherra. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Forsætisráðherrann þótti óvenju óstyrkur á blaðamannafundinum er hann kynnti ráðherrana en Nielsen tekur við embættinu af Flemming Hansen sem hefur tilkynnt að hann hyggist ekki gefa kost á sér á næsta kjörtímabili. Eva Kjer Hansen lætur af embætti félagsmálarðaðherra og tekur þess í stað við embætti matvælamálaráðherra af Hans Christian Schmidt en ekki hafa verið gefnar ástæður fyrir því að hann lætur af embætti.
Rasmussen tók þó sérstaklega fram í dag að ástæðan fyrir ráðherraskiptunum væri ekki óánægja með störf þeirra Schmidt og Kjer Hansen. „Það er nauðsynlegt annað slagið að hræra svolítið í pottunum og það er gott fyrir stjórnmálamenn að prófa eitthvað nýtt,” sagði hann.
Kjer Hansen þótti hins vegar ekki sýna mikla þekkingu á sínum nýja málaflokki er hún var spurð að því hvaða mál féllu undir ráðuneyti hennar. „Ég veit að fiskur gerir það,” sagði hún. „Og ég veit ýmislegt um fisk, sérstaklega um bragðgóðan fisk.