Í skýrslu sem svissnesk yfirvöld hafa látið gera um kynþáttamismunun kemur fram að kerfið sem innflytjendur búi við í landinu sé meingallað og í raun þrungið kynþáttafordómum. Einkum er gagnrýnd sú regla að íbúar kjósi um það hvort nágrannar fái ríkisborgararétt. Múslimar og innflytjendur frá Balkanskaganum og Afríku eru þeir sem líklegastir eru til að fá höfnun.
Lög um innflytjendur og ríkisborgararétt eru þau ströngustu í Evrópu. Erlendir ríkisborgarar þurfa að búa í landinu í tólf ár áður en þeir geta sótt um ríisborgararéttinn og þeir sem fæðast í landinu fá ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt.
Þá sækja innflytjendur um ríkisborgararéttinn hjá viðkomandi sveitarfélagi og svara spurningum um fyrirætlanir sínar og það hvers vegna þeir vilji búa í Sviss. Íbúar kjósa svo um umsóknina, oft þurfa allir kjörbærir að samþykkja umsóknina og þykir þetta ýta undir að umsóknum sé hafnað vegna fordóma.
Í skýrslunni er tekið dæmi um fatlaðan mann sem fæddist í Kosovo, þótt hann hafi uppfyllt öll skilyrði sem lagalega eru sett var honum hafnað á þeim forsendur að fötlunin gerði hann að byrði í sveitarfélaginu auk þess sem hann væri múslimi.
Í skýrslunni er mælt með því að ákvarðanir um ríkisborgararétt verði teknar framvegis af embættismönnum. Líklegt þykir að sú hugmynd muni mæta mikilli andstöðu. Málefni útlendinga eru orðin að hitamáli í Sviss, en þar er kosið til þings í næsta mánuði. Fólksflokkurinn, stærsti hægriflokkur landsins, sem hefur forskot í skoðanakönnunum, segir að sveitarfélög í Sviss eigi rétt á því að ákveða hverjir megi teljast Svisslendingar.