Byssumenn í Nígeríu rændu tveggja ára gamalli dóttur starfsmanns olíufélagsins Shell í Port Harcourt í gærkvöldi, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Brutust byssumennirnir inn á heimili þeirra og höfðu stúlkuna á brott með sér. Talsmaður Shell segir að félagið hafi fengið upplýsingar um barnsránið og farið hafi verið fram á að henni yrði sleppt heilu og höldnu úr haldi mannræningja.
Talsmaður lögreglunnar í Port Harcourt, helstu olíuborg landsins, staðfesti að um vopnað rán hafi verið að ræða og að stúlkubarni hafi verið rænt. Unnið sé að rannsókn málsins.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á ráninu og engar kröfur verið lagðar fram um lausnargjald.
Ekki kemur fram af hvaða þjóðerni stúlkan og foreldrar hennar eru en mannrán eru tíð á þessu svæði. Undanfarna mánuði hefur færst í vöxt að börnum háttsettra Nígeríumanna sé rænt og foreldrum þeirra. Eitthvað sem var fátítt áður.