Kínversk stjórnvöld vilja draga úr dauðarefsingum

Stjórnvöld í Kína hafa óskað eftir því við dómara landsins að beita dauðrefsingum í hófi og sýna morðingjum linkind ef þeir sýna stjórnvöldum samvinnu og glæpamenn sem hjálpa stjórnvöldum við að upplýsa um hvítflibbaglæpi. Er þetta liður í viðleitni stjórnvalda til þess að breyta refsiramma landsins. Í Kína eru fleiri dæmdir til dauða heldur samanlagt annars staðar í heiminum.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum kemur fram að dauðarefsingu skuli einungis beitt í fáum tilvikum og þá þegar um mjög alvarlega glæpi er að ræða.

Þegar hægt er, að því er segir í tilkynningunni, á að fresta aftöku í tvö ár frá dómi en í þeim tilvikum er dauðarefsingu oft breytt í lífstíðarfangelsi ef viðkomandi fangi hegðar sér vel í fangelsi.

Til að mynda eigi ekki sjálfkrafa að dæma menn til dauða fyrir ástríðuglæpi, svo sem þegar fjölskyldumeðlimur eða nágranni er myrtur, ef morðinginn greiðir fjölskyldu fórnarlambsins skaðabætur. Jafnframt eiga þeir sem gerast sekir um efnahagsbrot að fá vægari refsingu ef þeir sýna stjórnvöldum samvinnu við að endurheimta fjármuni sem stolið er.

Á þriðjudag var yfirmaður Landbúnaðarbanka Kína tekinn af lífi fyrir að þiggja mútur og fjárdrátt.

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International voru að minnsta kosti 1.770 manns teknir af lífi í Kína árið 2005, sem er um 80% af þeim fjölda sem teknir voru af lífi í heiminum það ár. Telja samtökin að mun fleiri séu teknir af lífi árlega í Kína en kínversk stjórnvöld gefa ekki upp opinberar tölur um hversu margir eru teknir af lífi árlega í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert