Leiðtogi Íraksarms hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda hótar í hljóðupptöku ýmsum sænskum fyrirtækjum vegna þess að sænsk stjórnvöld hafa ekki gripið til aðgerða vegna skopteikningar af Múhameð spámanni, sem birtist í sænsku héraðsfréttablaði. Nefnir leiðtoginn m.a. fyrirtækin Ikea, Volvo, Ericsson, Scania og Electrolux. .
Í sömu hljóðupptöku býður Abu Omar al-Baghdadi þeim, sem drepur sænska teiknarann Lars Vilks 100 þúsund dali að launum og leggur 50 þúsund dali til höfuðs Ulf Johansson, ritstjóra blaðsins Nerikes Allehanda, sem fyrst birti teikninguna.
Sænska blaðið Dagens Nyheter segir, að sænska öryggislögreglan hafi kallað út aukalið vegna hótunarinnar, en telji þó ekki, að hætta á hryðjuverkaárás á Svíþjóð hafi almennt aukist.