2000 skotmörk hafa verið valin í Íran

Breska blaðið Sunday Telegraph segir í dag að háttsettir bandarískir embættismenn í leyniþjónustu og varnarmálaráðuneyti telji að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og nánustu samstarfsmenn hans, stefni að því að hefja hernað gegn Íran. Hefur verið útbúinn listi yfir allt að 2000 skotmörk í Íran, að sögn blaðsins.

Sunday Telegraph hefur eftir ónafngreindum embættismönnum, að Hvíta húsið telji ljóst að ekki verði hægt að fá Írana ofan af kjarnorkustarfsemi með diplómatískum aðferðum. Þess vegna hafi verið undirbúin áætlun um að auka stöðugt þrýstinginn á Írana þótt það kunni að enda með hernaði.

Blaðið segir, að Condoleezza Rice, utanríkisráðherra, sem til þessa hafi hvatt til þess að leitað verði diplómatískrar lausnar, sé reiðubúin að jafna ágreining sinn við Dick Cheney, varaforseta og fallast á hernaðaraðgerðir.

Eru háttsettir embættismenn sagðir sannfærðir um, að Bush og samstarfsmenn hans vilji tryggja á kjörtímabilinu, að Íranar geti ekki framleitt kjarnorkuvopn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert