Gerðu Ísraelsmenn árás á kjarnorkumannvirki í Sýrlandi?

Hávær orðrómur er að sögn breska blaðsins Sunday Times um að dularfullar ferðir ísraelskra herflugvéla inn í lofthelgi Sýrlendinga nýlega hafi verið vandlega undirbúin árás á svæði, þar sem búið var að safna saman ýmsum tækjum og hráefni til kjarnorkustarfsemi. Talið er að Norður-Kórea tengist málinu.

Ísraelsk og sýrlensk stjórnvöld hafa verið frekar fámál um þetta. Opinbera skýringin er, að Ísraelsmenn hafi gert árás á vopnasendingar, sem ætlaðar voru Hizbollahsamtökunum í Líbanon en sú skýring þykir ekki líkleg.

Blaðið hefur eftir Andrew Semmel, háttsettum embættismanni í bandaríska utanríkisráðuneytinu, að Sýrlendingar kunni að hafa komið sér upp „leynilegum birgðum" og að nokkrir erlendir sérfræðingar séu í landinu.

Þegar hann var spurður hvort þeir væru frá Norður-Kóreu svaraði hann: „Það eru Norður-Kóreumenn þarna, á því leikur enginn vafi."

Blaðið velti því fyrir sér hvort Sýrlendingar, sem hafa komið sér upp efnavopnum, vilji einnig koma sér upp kjarnorkuvopnum eða hvort þeir hafi tekið að sér að fela búnað fyrir Norður-Kóreumenn og gert þannig Kim Jong-il, leiðtoga landsins, kleift að þykjast hafa aflagt kjarnorkuáætlanir landsins gegn því að fá efnahagsaðstoð. Þá sé einnig hugsanlegt, að búnaðurinn hafi verið ætlaður Írönum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka