Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir í væntanlegri ævisögu sinni, að honum þyki miður, að það þyki óþægilegt, pólitískt, að viðurkenna það sem allir vita: Að stríðið í Írak snúist aðallega um olíu.
Sjálfsævisaga Greenspans, sem er 81 árs, kemur út á morgun og ef marka má fjölmiðla er hann í bókinni afar gagnrýninn á George W. Bush, Bandaríkjaforseta, og Repúblikanaflokkinn, sem Greenspan hefur þó fylgt að málum lengi.
Breska blaðið Sunday Times segir í dag, að Greenspan telji að Saddam Hussein hafi þótt ógna stöðugleika á olíusvæðunum í Miðausturlöndum og því hafi verið ákveðið að ráðast gegn honum.
Bandaríkjamenn og Bretar hafa ávallt fullyrt, að stríðið í Írak tengist ekki olíu með neinum hætti. Bush sagði, að markmiðið hefði verið að uppræta gereyðingarvopn í Írak og stöðva stuðning Saddams við hryðjuverkamenn.