Sjampó rekur á land við Hanstholm

Löggæslumenn í Hanstholm í Danmörku hafa átt annríkt við að gæta varnings, sem rekið hefur á land úr finnsku flutningaskipi en fjórir gámar fuku af þilfari skipsins í fyrrinótt. Meðal annars rak sjampó og skó á land við Roshage fyrir austan höfnina og höfðu íbúar á svæðinu tekið þennan varning sér til handargagns áður en strandfógetinn og hans menn komu á staðinn.

Að sögn Nordjyske Stiftstidende tókst fógetanum þó að koma í veg fyrir, að tveir menn opnuðu einn gáminn, sem hafði rekið á land í heilu lagi.

Notuð hefur verið þyrla og varðbátur til að svipast um eftir hinum gámunum þremur en af þeim hafa hvorki sést tangur né tetur. Hefur verið send út viðvörun til skipa á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert