Joachim Meisner, kardínáli og erkibiskup í Köln í Þýskalandi, hefur valdið deilum þar í landi eftir að hann sagði, að sum nútímalist væri úrkynjuð. Þýskir nasistar notuðu þetta hugtak á síðum tíma til að réttlæta ofsóknir gegn listamönnum.
Meisner var að flytja ávarp við vígslu nýs listasafns á vegum dómkirkjunnar í Köln. Sagði hann þá m.a., að þegar list missti tengslin við tilbeiðsluna yrði menningin úrkynjuð.
Talsmaður kardínálans sagði á eftir, að hann hefði ekki ætlað að upphefja gamla hugmyndafræði. En haft er eftir fréttamanni BBC á vef breska ríkisútvarpsins, að kardínálinn hefði ekki misst þessi orð út úr sér heldur hefði ræðan verið skrifuð.
Hugtakið úrkynjuð list, Entartete Kunst, þýðir í hugum Þjóðverja ofsóknir gegn listamönnum, bönnuð málverk og bókabrennur. Þetta var yfirskrift sýningar, sem nasistar héldu árið 1937 í München sem einskonar viðvörun til þýsku þjóðarinnar.