Ný könnun sem gerð hefur verið á baðherbergisvenjum Bandaríkjamanna hefur leitt í ljós að aðeins þriðjungur bandarískra karla þvær sér um hendurnar eftir að hafa heimsótt almenningssalerni. Ástandið virðist fara versnandi því þegar sambærileg rannsókn var gerð fyrir tveimur árum var það aðeins fjórðungur sem ekki þvoði sér um hendurnar.
Fylgst var með 6.000 manns á almenningssalernum, körlum og konum, í fjórum stórum borgum í Bandaríkjunum. Einfaldlega var njósnað um fólk á almenningssalernunum á íþróttaleikvöngum, útimörkuðum og söfnum. Konur standa sig mun betur en karlar samkvæmt rannsókninni, en 88% þeirra þvo sér um hendurnar eftir að hafa notað almenningssalerni.
Rannsóknin bendir líka til þess að Bandaríkjamenn séu ekki allir sannsöglir, í nýlegri könnun þar sem Bandaríkjamenn voru spurðir um salernisvenjur sögðust 92% þeirra þvo sér um hendurnar eftir salernisferðir.
Handþvottur er ekki aðeins tillitssemi við þá sem ætlunin er að heilsa með handabandi, heldur er hann sagður það besta sem fólk getur gert til að koma í veg fyrir að það veikist af flensu, kvefi, eða sýklum í mat.