Hillary Clinton, sem sækist eftir að verða forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, boðaði í dag miklar umbætur á bandaríska heilbrigðiskerfinu, sem hún segist munu hrinda af stað ef hún verður forseti Bandaríkjanna.
Umbæturnar eru sagðar byggja á því að Bandaríkjamenn verði skyldugir til að hafa heilbrigðistryggingu og að ríkið hlaupi undir bagga með þeim sem ekki eru tryggðir í gegn um atvinnurekendur eða eru ekki í stakk búnir til að greiða fyrir trygginguna.
Í tillögunum er gert ráð fyrir að 110 milljörðum Bandaríkjadala verði varið til heilbrigðismála á ári.
Hillary Clinton fékk það verkefni við upphaf valdatíðar Bill Clinton, eiginmanns hennar, að hafa umsjón með miklum breytingum á heilbrigðiskerfinu. Hætt var við verkefnið, sem þótti hafa mistekist illilega, og er það talið hafa átt þátt í að demókratar misstu þingmeirihluta.
Clinton sagði er hún kynnti hugmyndir sínar að hún vissi líklega betur en nokkur annar hversu erfitt væri að hrinda slíkum umbótum í framkvæmd.