Íranar bregðast ókvæða við ummælum Frakka um hugsanlegt stríð

Íranskir ríkisfjölmiðlar hafa brugðist ókvæða við ummælum Bernards Kouchners, utanríkisráðherra Frakka, um að heimurinn þurfi að búa sig undir hugsanleg hernaðarátök vegna kjarnorkuáætlunar Írana. Sagði opinber fréttastofa Írans, að Frakkar séu að apa eftir Bandaríkjamönnum og að nýr forseti landsins hafi gengið í bandarísk björg.

Kouchner sagði m.a: „Við verðum að búa okkur undir það versta og það versta er stríð."

Kjarnorkuáætlun Írana verður til umræðu í Vín á ársfundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Íranar hafa ítrekað neitað því að þeir séu að þróa kjarnorkuvopn og ætli aðeins að nota kjarnorku til að framleiða rafmagn fyrir landsmenn. En írönsk stjórnvöld hafa einnig ítrekað hafnað kröfum Sameinuðu þjóðanna um að hætta að auðga úran.

Kouchner sagði, að reyna yrði til þrautar að fara samningaleiðina að Írönum en ekki yrði þó litið fram hjá þeirri miklu hættu, sem heiminum myndi stafa af írönskum kjarnorkuvopnum.

Opinber fréttastofa Írans sagði í dag, að íbúarnir í frönsku forsetahöllinni væru farnir að framfylgja erfðaskrá Hvíta hússins og ræður þeirra væru jafnvel harðorðari, æsingarkenndari og röklausari en ræður bandarískra ráðamanna.

Fréttaskýrendur segja, að orðið hafi stefnubreyting eftir að Nicolas Sarkozy tók við forsetaembættinu í Frakklandi í sumar. Þarlend stjórnvöld hafi tekið upp harðari stefnu í ýmsum málum og reyni að bæta samskiptin við Bandaríkin.

Bandarísk stjórnvöld hafa ekki útilokað að beita hernaðaraðgerðum gegn Íran til að koma í veg fyrir að Íranar komi sér upp kjarnorkuvopnum.

Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert