Þingmaður á ríkisþingi Nebraska hefur höfðað óvenjulegt dómsmál en þingmaðurinn hefur stefnt Guði fyrir rétt og segir hann hafa valdið ómældri eyðileggingu og dauða. Þingmaðurinn segir, að vel sé hægt að stefna Guði fyrir rétt í Douglassýslu vegna þess að hann sé allstaðar.
Ernie Chambers, sem hefur setið á ríkisþinginu frá árinu 1970, vill með þessu máli vekja athygli á fáránlegum málshöfðunum, sem hann segir vera að sliga bandaríska réttarkerfið. Í kæru sinni segir hann, að Guð hafi komið fram með hryðjuverkahótanir gegn sér og kjósendum í Nebraska, valdið ótta og víðtækri eyðileggingu ógnum og dauða milljóna á milljóna ofan. Þá hafi hann valdið ógnvænlegum flóðum, hræðilegum fellibyljum og hvirfilbyljum.
Chambers, sem er sjötugur að aldri og hefur verið gagnrýninn í garð kristinna manna, segir að hann hafi ákveðið að höfða málið eftir að mál var höfðað gegn dómara, sem nýlega bannaði notkun orða á borð við nauðgun og fórnarlamb í máli, sem höfðað var vegna kynferðislegrar árásar. Taldi sá sem höfðaði málið, að dómarinn væri með þessu að hefta málfrelsi.