Dómara bannað að tjá sig um hvarf Madeleine

Madeleine McCann.
Madeleine McCann. Reuters

Portúgölsk réttarfarsnefnd hefur neitað dómara sem fer með mál Madeleine McCannað, litlu stúlkunnar sem hvarf í byrjun maí, að tjá sig um það í fjölmiðlum til að fullnægja hinum gríðarlega mikla áhuga sem málið hefur vakið um heim allan.

Dómarinn, Pedro Frias, hafði beðið nefnd dómara um leyfi til að útskýra fyrir almenningi hver framvinda glæparannsóknarinnar væri.

Portúgalska dagblaðið Correio de Manha skýrði frá því að Frias dómari teldi að það væri nauðsynlegt að taka með í reikninginn hinn gríðarlega áhuga fjölmiðla á þessari glæparannsókn.

Réttarfarsnefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri óþarft að brjóta hefðbundnar vinnureglur til að svala forvitni breskra fjölmiðla og hafnaði þessari óvenjulegu beiðni til að vernda réttindi hinna grunuðu, foreldra Madeleine.

Portúgalskir og erlendir fjölmiðlar hafa birt misvísandi upplýsingar um framgang rannsóknarinnar. Lögreglan hefur ekki látið neitt uppi um grunsemdir sínar í málinu frekar en í öðrum glæparannsóknum.

Lögreglan hefur borið mál sitt undir saksóknara sem báru það undir rannsóknardómara sem hefur 10 daga til að ákveða hvernig málinu skuli framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert