Helmingur þeirra mæla sem eiga að nema höggvinda við flugvöllinn á Phuketeyju voru óvirkir er farþegaþotan brotlenti í miklum vindhviðum á sunnudagsmorgun. „Þrír af sex mælum sem nema höggvinda og eru tengdir viðvörunarkerfi virkuðu ekki þegar slysið varð,” sagði Vuttichai Singhamanee samgönguráðherra í dag.
Flugvél lágfargjaldaflugfélagsins One-Two-Go var með 123 farþega og sjö áhafnarmeðlimi á leið til Phuket frá Bangkok er henni hlekktist á í lendingu og rann út af flugbrautinni í úrhellisrigningu og sterkum vindhviðum.
Að mati rannsóknarmanna eru snarpir vindar hugsanleg ástæða fyrir slysinu.
Hættulegir höggvindar
Höggvindar eru hættulegt fyrirbæri og verða þegar snögg breyting verður á vindátt eða snúningur, til dæmis þegar sterkur vindur dettur skyndilega niður. Flugsérfræðingur sem Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við sagði að þetta væri hættulegt fyrirbæri sérstaklega þegar flugmaður stefnir upp í vindinn og treystir á að hann haldi vélinni á lofti en þegar vindurinn dettur síðan skyndilega niður um allt að 10 metra á sekúndu missir vélin flugið og skellur niður.