Foreldrar bresku stúlkunnar Madeleine McCann eru nú sögð ætla að rjúfa þögn sína varðandi nokkur atriði í rannsókn portúgölsku lögreglunnar áhvarfi stúlkunnar í maí. Samkvæmt portúgölskum lögum mega þau ekki tjá sig um rannsóknina og í gær var portúgölskum dómara neitað um heimild til að gera það. Foreldrarnir eru hins vegar sagðir sjá sig nauðbeygða til greina frá sjónarhorni sínu vegna þeirrar myndar sem dregin hefur verið upp af þeim í fjölmiðlum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Á meðal þess sem foreldrarnir eru sagðir ætla að útskýra er það hvernig erfðaefni, sem svipar mjög til erfðaefnis Madeleine, hafi komist í bílaleigubíl sem þau höfðu til umráða nokkrum vikum eftir að stúlkan hvarf. Segja þau bílinn hafa verið notaðan til að flytja föt er þau fluttu á milli íbúða, þar á meðal sandala sem Madeleine hafi gengið í. Þá segja þau líklegt að hland hafi borist úr bleyjum systkina Madeleine í bílinn en börnin hafa öll mjög svipað erfðaefni.
Einnig hefur verið greint frá því að lögmenn McCann hjónanna ætli að ræða við lögmenn manns, sem sakaður var um aðild að sprengjutilræðinu í Omagh á Írlandi árið 1999 um sönnunargildi erfðaefnis.
Fjölmiðlar í Portúgal gera því nú skóna að lögregla í landinu hafi farið fram úr sjálfri sér er hún leiddi líkum að því að foreldrarnir hafi valdið dauða stúlkunnar og falið lík hennar.