Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, lýsir yfir stríði á hendur Pervez Musharraf, forseta Pakistans, í nýju ávarpi, sem á að birta innan skamms á netinu. Þetta kemur fram á íslamskri vefsíðu þar sem áður hafa verið birt ávörp frá al-Qaeda.
„Al-Qaeda mun lýsa yfir stríði á hendur harðstjóranum Pervez Musharraf og guðleysingjaher hans, með rödd Osama bin Ladens, guð varðveiti hann," segir á netsíðunni.
Bandaríska stofnunin IntelCenter, sem fylgist með íslömskum vefsíðum, segir að búast megi við ávarpinu á næstu sólarhringum.
Í morgun tilkynnti yfirkjörstjórn Pakistans að forsetakosningar fari fram í landinu 6. október en þar mun Musharraf sækjast eftir endurkjöri. Musharraf hefur lýsti því yfir, að verði hann kjörinn muni hann láta af embætti yfirmanns hersins.
Í myndbandi, sem sýnir ávarp Aymans al-Zawahiris, helsta aðstoðarmanns bin Ladens, segir að Musharraf verði refsað fyrir það að pakistanski herinn drap klerk þegar ráðist var á Rauðu moskuna svonefndu í Islamabad í júlí. Segir al-Zawahiri, að pakistanskir hermenn séu veiðihundar undir krossi Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta.