Sarkozy ætlar að fækka frönskum ríkisstarfsmönnum

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands. AP

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að fækkað verði um 22 þúsund störf í franska ríkiskerfinu. Verður það gert með því að ráða ekki í störf sem losna. Þá hefur Sarkozy boðað breytingar á eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna. Verkalýðsfélög hafa brugðist hart við og hvetja til verkfalla í október.

„Ég vil sjá opinbera þjónustu, sem er minni um sig, þar sem launin eru hærri og möguleikar á frama meiri," sagði hann.

Sarkozy sagði, að franska ríkið hefði ekki lengur efni á svona mörgum starfsmönnum og markmiðið væri að eyða ekki einni einustu evru af almannafé í íþarfa.

Frönskum ríkisstjórnum hefur til þessa gengið illa að gera breytingar á opinbera kerfinu en franskir ríkisstarfsmenn njóta þægilegs vinnutíma, þokkalegra launa og starfsöryggis.

Árið 1995 var síðast gerð tilraun til að breyta eftirlaunakerfi franskra ríkisstarfsmanna og þá var þjóðfélagið lamað af verkföllum í þrjár vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert