Spænsk auglýsingaherferð gegn ólöglegum ferðum frá Afríku

Afríkubúar sem komu ólöglega til Los Cristianos á Kanaríeyjum í …
Afríkubúar sem komu ólöglega til Los Cristianos á Kanaríeyjum í síðustu viku. AP

Spænska stjórnin hefur látið gera auglýsingar þar sem Afríkubúar eru lattir til að reyna að komast ólöglega til Spánar og annarra Evrópuríkja og verður auglýsingunum sjónvarpað víða í Vestur-Afríku á næstu sex vikum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Í auglýsingunum er fólki ráðlagt að reyna ekki að komast á smábátum hina tólf daga löngu leið frá ströndum Afríku að ströndum Kanaríeyja, þar sem ferðin sé bæði hættuleg og litlar líkur á því að fólk nái að komast inn á vinnumarkaðinn í Evrópu þótt það nái þar landi.

Í auglýsingunum eru m.a. sýndar myndir af fólki sem hefur drukknað á umræddri leið og sagt frá sorg aðstandenda þeirra. Þá er staðhæft að unga fólkið sé framtíð Afríku.

Á síðustu tveimur árum hafa yfirvöld á Spáni gert samkomulag við yfirvöld í Alsír, Marokkó, Senegal, Máritaníu, Gambíu, Gíneu, Malí og Gana um að senda þá sem koma ólöglega til Spánar frá þessum löndum aftur til síns heima og síðan þá hefur þeir fækkað mjög sem leggja út í slíkar ferðir.

Frá því í janúar á þessu ári og fram í ágúst er vitað til þess að 6.659 Afríkubúar hafi komið ólöglega til Kanaríeyja en það er 66% fækkun frá sama tímabili á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert