Fimm manna bandarísk fjölskylda hefur óskað eftir pólitísku hæli í Finnlandi, samkvæmt upplýsingum frá útlendingaeftirliti Finnlands. Fjölskyldan, hjón með þrjú ung börn, komu til Finnlands á þriðjudag frá Þýskalandi. Ekki er algengt að Bandaríkjamenn sæki um pólitískt hæli í Finnlandi, samkvæmt upplýsingum frá útlendingaeftirlitinu. Segist starfsmaður þess ekki muna til þess að slíkt hafi gerst áður.
Útlendingaeftirlitið hefur ekki viljað tjá sig um fréttir í finnskum fjölmiðlum sem hafa velt því fyrir sér hvort foreldarnir séu að reyna að komast undan herþjónustu í Írak. Enda verði tekið á máli þeirra á sama hátt og annarra sem sæki um hæli í landinu. Það taki 3-6 mánuði að taka ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni þeirra.