Finnar setja viðvaranir á áfengisflöskur

ásdís

Finnsk stjórnvöld hafa ákveðið að setja viðvörunarmiða á áfengisflöskur en áfengi er helsta banamein Finna. Verða viðvörunarmiðar settir á bjór, léttvín og sterkt áfengi. Reglunar taka gildi árið 2009 og samkvæmt þeim verður að standa VAROITUS, sem þýðir viðvörun á finnsku, í hástöfum á hverjum miða auk þess sem þar á að koma fram að áfengi stofnar lífi fósturs og heilsu fólks í hættu. Textinn verður bæði á finnsku og sænsku enda er 6% hluti finnsku þjóðarinnar sænskumælandi. Talið er að miðarnir muni hækka verð á innfluttu áfengi og bjór um að minnsta kosti eina evru á flösku.

Fyrr í dag greindu finnsk heilbrigðisyfirvöld frá því að áfengi er helsti orsakavaldur slysa í landinu þar sem 25% slysa megi rekja til áfengisnotkunar. Um helgar eru um 50% þeirra sem leita til slysadeilda undir áhrifum áfengis. Í Finnlandi má rekja 17% dauðsfalla karlmanna á aldrinum 15-64 ára til misnotkunar á áfengi og er það í fyrsta skipti sem fleiri látast vegna misnotkunar á áfengi heldur en úr hjartasjúkdómum í landinu. Konur eru heldur ekki undanskildar því 10,5% dauðsfalla kvenna má rekja til misnotkunar á áfengi. Er það svipað hlutfall og þær sem látast úr brjóstakrabbameini

Finnsk stjórnvöld hafa markviss reynt að stemma stigu við áfengisvandamálinu í landinu meðal annars með því að einungis er heimilt að selja léttvín og sterkt áfengi í áfengisverslunum ríkisins. Árið 2004 voru hins vegar álögur á áfengi lækkaðir verulega til þess að koma í veg fyrir verslunarferðir Finna til Rússlands og Eistlands þar sem áfengi er mun ódýrara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert